Nýlega fengum við heila línu af HABA barnaspilunum fyrir börn tveggja ára og eldri. Í raun alveg upp í níræð börn.
HABA eða Habermaaß Inc. er þýskt tréleikfangafyrirtæki frá 1938 og einn þekktasti barnaspilaframleiðandinn í dag. Spilavinir hafa lengi haft vörur frá þeim til sölu hjá sér en aldrei hefur úrvalið verið eins mikið og nú.
Animal Upon Animal

Eitt af vinsælustu spilunum frá HABA er Dýr á dýr. Það hefur fengið mörg verðlaun, Major Fun! og Mr. Dad Seal of Approval meðal annars. Skiptast leikmenn á að kasta teningum sem segir til um hversu mörgum dýrum úr tré þeir eiga að stafla upp ofan á dýrin sem nú þegar eru komin. Spilið æfir sérstaklega fínhreyfingar og ekki vill maður fella staflann.
Dancing Eggs

Börn á öllum aldri munu hafa gaman af Dancing Eggs. Spilið kemur í eggjabakka og inniheldur teninga og egg sem skoppa eins og skopparaboltar. Leikmenn grípa eggin, þurfa að geyma þau undir handarkrikanum eða milli lappana á meðan þeir reyna að grípa fleiri egg. En það má ekki missa eggin og maður verður að varast eggjaþjófa.
Hit The Throttle!

Leikmenn hreyfa kappakstursbíla eftir því hvað kemur upp á teningum en enginn veit hvaða kappakstursbíla andstæðingarnir hafa. Einfaldur teningaleikur fyrir 2-4 leikmenn frá 4 ára aldri.
Brandon The Brave

Ævintýri með Brandon hugdjarfa. Þetta skemmtilega myndskreytta spil má segja að sé einhverskonar Carcassonne fyrir börn. Til að verða riddari þarf að skoða sig um, leita uppi risa, dreka, nornir og aðrar hættur. Sigra í kappreiðum og elta uppi fjársjóði. Það er gert með því að skiptast á að leggja út flísar sem smátt og smátt mynda spilaborðið. Spilið er fyrir 2-4 leikmenn frá fimm ára aldri og er rosalega gaman að spila með börnunum.