Æsispennandi Partnersmót
Það eru haldin spilamót mánaðarlega í Spilavinum og það er alltaf jafn gaman, enda fátt skemmtilegra en að spila skemmtilegt spil á móti. Þó maður hafi spilað spilið skrilljón og tvisvar, þá er alltaf öðruvísi að keppa í spilinu. Spennan og stressið verða áþreifanlegri. Það voru komin fiðrildi í magann á mér klukkutíma fyrir síðasta Partners-mót, og ég var ekki einu sinni að keppa!
Um leið og fiðrildin byrjuðu að flögra í maganum á mér, fóru fyrstu keppendurnir að láta sjá sig. Smám saman var kominn hópur keppenda, bæði fólk sem maður hefur séð áður (t.d. síðustu sigurvegarar) og fólk sem hafði lært Partners stuttu fyrir mótið. Eins og á öðrum mótum hjá okkur, sá Steingerður Lóa um mótshaldið. Fyst hélt hún stutta tölu þar sem nokkrar reglur í spilinu voru samstilltar á milli keppenda (upphafsreiturinn og síðasta beygja eru ekki taldir þegar farið er yfir þá, hvernig á að telja út 7×1 spilin á síðustu reitunum, og reglan um hvernig peð mega hreyfa sig á lokasvæðinu.
Það kom nefnilega upp að í Partners-appinu (App Store / Google Play) er regla sem er ekki eins og í spilinu sjálfu. Í appinu má peð sem er komið inn á lokasvæði aðeins færa á lokareitinn á svæðinu, eða fara út úr lokasvæðinu. Reglan í appinu var búin til fyrir Danmerkur-meistaramótið til að stytta spilatíma á mótum. Þannig að báðar reglurnar lifa enn góðu lífi en eru ekki í sambúð.





Þegar allir keppendur voru tilbúnir fór tíminn af stað. Hámarkstíma spila á Partners-móti er 40 mínútur. Ef spil klárast ekki er talið út hve margir reitir eru eftir og sigurvegarinn fundinn þannig.
Strax í fyrstu umferð komu augnablik þar sem spennan var allsráðandi. Það hefði mátt halda að væri verið að fylgjast með einhverri boltaíþróttinni, þvílík voru ópin. Í einu spilanna var nefnilega hnífjafnt á milli liðanna: tvö peð úti og á nákvæmlega sömu stöðum, fimm reitum frá lokareitnum. Án þess að vita það voru bæði liðin með hvort 7×1 spilið á hendi, og kom þá að Steingerði að útskýra regluna um að 7×1 spil þarf að klára alveg — ef síðasta peðið er komið alla leið í mark en 2 hreyfingar eftir á spilinu, þá verður leikmaðurinn að nota þær hreyfingar.
Þannig varð að:
- annað peðið lenti 2 reitum frá markinu, og
- næsti leikmaður átti bara hjarta.
- Þá var seinna 7×1 spilinu spilað út, og nákvæmlega sama staða kom upp. Það peð var tveimur reitum frá sigri.
- Næsti leikmaður átti líka bara hjarta.
- Síðasta spilið sem fór út í þeirri umferð … var tvistur!
Aftur voru hrópin slík að maður mætti ætla að það væri landsleikur í gangi. Sigurvegari þessa leiks var fundinn.
Mótið hélt áfram á tiltölulega venjulegum hita eftir það og oftast náðu leikir að klárast án þess að telja þyrfti út. Eftir þrjár umferðir voru stig talin, til að finna út hvaða lið höfðu unnið sér inn að keppa um fyrsta sætið, og um 3-4 sætið. Mótsstigin á milli 3, 4, og 5 sætanna voru svo jöfn að það þurfti að grípa til útsláttarreglu sem metur gæði liða sem sigrar fengust úr. Þannig að, ef eitt lið sigraði lið sem hafði sigrað önnur lið, þá var það talið hærra en lið sem sigraði lið sem hafði tapað öðrum leikjum sínum.
Sigurvegarar mótsins, Jana og Victor, til hamingju með sigurinn! Við hlökkum til að sjá ykkur á næsta móti.



