Löng saga stutt: „Of margir apar“ er hætt í framleiðslu. Hins vegar er til spil sem heitir „Fröschis“ sem við mælum með í staðinn.
Too Many Monkeys

Eitt langvinsælasta spil sem við höfum haft ánægju af að kynna og kenna í gegnum árin hefur verið hið litla og skemmtilega „Of margir apar“. Spilið er einfalt að læra og kenna, og hefur skemmt börnum, vinum og fjölskyldum þeirra frá árinu 2009. Hér á landi hefur spilið haldið vinsældum sínum ár eftir ár, en erlendis hefur það dalað. Svo mjög að framleiðendurnir ákváðu að setja spilið upp í hillu og hætta framleiðslu.
Of margir apar
Þegar við fréttum af því að spilð væri að detta úr framleiðslu, þá var okkur boðið að láta framleiða sérstaklega fyrir okkur. Og fyrst svo væri, þá mættum við — ef við vildum — þýða spilið, því þessi prentun væri eingöngu fyrir okkur. Að sjálfsögðu þáðum við það með þökkum, og „Of margir apar“ litu dagsins ljós. Það var óvænt ánægja að fá þetta tækifæri til að bjóða upp á svona vinsælt spil á okkar ylhýra máli.

Dyrunum lokað
Í spilinu erum við að reyna að opna dyr, táknaðar með spilum, í réttri röð. Það sem þú vilt ekki að gerist er að dyrum sé lokað, en það er næsti kafli í sögu spilsins. Dyrunum var lokað á áframhaldandi framleiðslu á spilinu. Við fengum þær fréttir að allri framleiðslu á spilinu væri hætt — líka sérframleiðslu eins og okkar. Eins mikið og við munum sakna spilsins, þá var ekkert við því að gera. Síðustu eintökin okkar seldust síðsumars og „Of margir apar“ eru ekki lengur til.
Of margir… froskar?
Almennt tel ég ekki gott ráð að leita að spili sem er næstum því alveg eins og eitthvað uppáhaldsspil sem verið er að leita að. Ég mæli yfirleitt með því að fólk setji sig á biðlista hjá spilinu á vefnum okkar, og velji sér svo eitthvað annað skemmtilegt spil sem sé ekkert líkt hinu. Þegar hitt spilið kemur aftur, þá getur viðkomandi keypt það og á þá tvö skemmtileg en ólík spil.
Því miður búum við ekki svo vel núna. „Of margir apar“ eru ekki að koma aftur. Þess vegna treysti ég mér til að mæla með öðru spili sem er næstum nákvæmlega eins og „Of margir apar“ nema ögn minna kvikyndislegt. Ég kynni til sögunnar „Fröschis“ eða „Froskar“ á íslensku.
Fröschis
„Fröschis“ er spil sem kom út árið 2021 og er eftir Haim Shafir, sem er meðal annars þekktur fyrir spil eins og Speed Cups, Clack og Halli Galli. Það fékk meðmæli til Spils ársins (Spiel des Jahres) í Þýskalandi árið eftir. Spilinu er still upp eins og „Of mörgum öpum“ nema að í því eru spil frá 1-8 og alls eru því sett 8 spil á grúfu fyrir framan hvern leikmann. Eftir það spilast spilið alveg eins, nema að í „Fröschis“ eru engin spil sem loka hurðum, eða láta einhvern missa úr umferð. Hér eru aftur á móti spil með rusli eins og til dæmis hálfétnu epli eða gömlum skó. Í stað órangútan apans Villta villa, sem er jókerinn í „Of mörgum öpum“, þá gilda froskar allar tölur.
Fyrir ykkur sem eigið þegar „Of margir apar“, þá gætuð þið viljað versla þessi spilaplöst (e. sleeve) yfir þau, til að auka endingartíma þeirra. Eða skella ykkur á „Fröschis“. Það má gera bæði.