
Íslandsmeistari í þriðja skiptið
Það var góður andi í hópnum sem kom í Spilavini í gær til að taka þátt í Íslandsmeistaramótinu í Carcassonne 2025. Þar voru mörg kunnugleg andlit auk tveggja fyrrum íslandsmeistara — annar þeirra Steingerður Lóa, mótshaldarinn okkar. Yngsti keppandinn á mótinu — 8 ára — brunaði beint af skákmóti á Carcassonne-mótið með bikar í hönd.
Mótið hófst á þremur umferðum til að skera úr um fjóra bestu spilarana. Frosti og Stefán, tvöfaldur Íslandsmeistari, komu stigahæstir úr undanriðlinum og spiluðu þess vegna á sínu hvoru borðinu.
Undanúrslit
Dino fékk það hlutskipti að keppa við Stefán og hafði ekki erindi sem erfiði. Frosti keppti við Sigurrós, sem hafði lært spilið á þessu ári og mjög gaman að sjá hana koma sterka inn í Carcassonne-samfélagið. Sigurrós hafði sigurinn af Frosta og keppti upp á gullið við Stefán.
Stefán hafði betur í úrslitaleiknum og tók sitt þriðja gull. Hann fær því keppnisrétt á heimsmeistaramótið í Carcassonne, sem haldið er í Essen á hverju hausti.
Það var mikil ánægja með mótið og tilhlökkun til næsta móts, sem verður í hinu frábæra Dominion.





