Fyrsta spilanámskeið Spilavina í sumar hefur þemað Lygalaupar. Námskeiðaröð Spilavina er ætluðum krökkum á aldrinum 11-13 ára. Við spilum og lærum fjölbreytt spil sem byggja að miklu leyti á því að blekkja eða lesa hina leikmennina. Enn eru nokkur pláss laus og hægt er að skrá sig á netfanginu spilavinir@spilavinir.is
Blekkingarspilin eru ótrúlega áhugaverður flokkur spila. Í þeim skipta samskipti öllu máli. Hvað maður segir, hvernig maður segir það og svo þarf að hafa útsjónarsemi til að nýta sér aðstæðurnar sem best. Spil í þessum flokki er t.d hið vinsæla Varúlfur, einnig Coup, The Resistance, Kakkalakkapóker og jafnvel póker sjálft. Einnig stærri borðspil eins og Battlestar Galactica, Shadows over Camelot og hið vinsæla Dead of Winter.
Á námskeiðunum fá þátttakendur að kynnast mörgu því skemmtilegasta sem spilin og spilahönnun hefur upp á að bjóða. Við munum spila mikið, læra margvísleg spil og fá innsýn inn í hvernig þau eru hönnuð og hvað gerir þau skemmtileg. Námskeiðin eru í umsjá ákaflega reynslumikils spilakennara og meistara í leikjahönnun og er hvert námskeið vika, stútfull af skemmtun og fróðleik.
Námskeiðin eru þannig uppbyggð að kennt og spilað er frá 13-16 mánudag, þriðjudag og miðvikudag en á fimmtudag og föstudag eru sérstakar spilastundir undir leiðsögn. Nemendur fá klippikort og geta með því nýtt fimmtudaga og föstudagana í annarri viku en þeir voru á námskeiði ef það hentar þeim betur vegna annarra dagskrár sem þeir gætu haft um sumarið.
Skráning er í fullum gangi á spilavinir@spilavinir.is