Í sumar ætla Spilavinir að bjóða upp á spennandi spilanámskeið fyrir krakka á aldrinum 11-13 ára.
Á námskeiðunum fá þátttakendur að kynnast mörgu því skemmtilegasta sem spilin og spilahönnun hefur upp á að bjóða. Við munum spila mikið, læra margvísleg spil og fá innsýn inn í hvernig þau eru hönnuð og hvað gerir þau skemmtileg. Námskeiðin eru í umsjá ákaflega reynslumikils spilakennara og meistara í leikjahönnun og er hvert námskeið vika, stútfull af skemmtun og fróðleik.
Námskeiðin eru þannig uppbyggð að kennt og spilað er frá 13-16 mánudag, þriðjudag og miðvikudag en á fimmtudag og föstudag eru sérstakar spilastundir undir leiðsögn. Nemendur fá klippikort og geta með því nýtt fimmtudaga og föstudagana í annarri viku en þeir voru á námskeiði ef það hentar þeim betur vegna annarra dagskrár sem þeir gætu haft um sumarið.
Verðið á hvert námskeið er 21.900 krónur.
Námskeiðin hafa ákveðið þema þar sem lagt er áhersla á ákveðin atriði í spilum og hvernig þau verða til.
20-24. júní – Lygalaupar – Við skoðum sérstaklega skemmtilegu spilin sem snúast um það að spila á hina leikmennina. Blekkingarleikir, Varúlfur og spil þar sem hvernig við högum samskiptum skipta höfuðmáli.
27-1. júlí – Spilum betur – Við skoðum hvernig við getum bætt okkur og orðið betri í uppáhalds spilunum okkar. Munurinn á strategíu og taktík, skammtíma versus langtímagróði, áhættumat, telja út og lesa mótherjana okkar.
4-8. júlí – Búum til spil! – Leikjahönnun fyrir krakka. Farið verður í gegnum ferlið hvernig spil eru sett upp, hönnuð og prufukeyrð til. Krakkarnir fá leiðsögn og prófa svo sjálf að hanna spil sem allir geta spilað.
Námskeiðin eru haldin í vinalegum spilasal verslunar Spilavina á Suðurlandsbraut 48 en þar er sennilega geymt eitt stærsta spilasafn landsins.
Leiðbeinandi námskeiðsins er Sigursteinn Jóhannes Gunnarsson. Sigursteinn hefur margra ára reynslu í vinnu með krökkum. Hann hefur unnið á leikskóla, í sumarbúðum Kaldársels og auðvitað í mörg ár hjá Spilavinum og bekkjarkvöldunum þeirra.
Sigursteinn er nýkominn úr meistaranámi frá New York í Bandaríkjunum í leikjahönnun. Þar lærði hann að búa til spil og leiki undir sumum af bestu kennurum og leikjahönnuðum heims.
Hann er líka meistara varúlfsstjórnandi, sérfræði spilareglukennari og yfir-kænskuþjálfi.
Tekið er við skráningum í gegnum tölvupóst á spilavinir@spilavinir.is. Þar er einnig hægt að fá nánari upplýsingar um námskeiðin og fyrirkomulag þeirra.
Spilakveðjur,
Starfsfólk Spilavina