Mikið af spennandi spilum hafa verið að koma út. Eitt af þeim er T.I.M.E Stories frá Space Cowboys. Leikmenn eru tímaflakkarar að leysa allskyns mál bæði í framtíð og fortíð. Þeir fara inn í líkama persóna sem eru á staðnum og reyna að stýra þeim í rétta átt. Þeir sem kannast við gömlu Quantum Leap þættina þekkja söguþráðinn.
Spilið er í raun kerfi sem heldur utan um hvernig ævintýrin eru spiluð. Reglulega munu vera gefin út ný ævintýri sem geta þá verið allt allt öðruvísi en þau sem fyrir eru. Fyrsta ævintýrið og það sem fylgir með í kassanum gerist á geðsjúkrahúsi í Frakklandi 1921 og þurfa leikmenn að vinna saman til að leysa ráðgátuna í kringum það.
Af því að leikmenn eru tímaflakkarar úr framtíðinni geta þeir nýtt sér tæknina til hins ítrasta og spólað aftur í tímann. Þannig geta þeir leiðrétt sín eigin mistök og smá saman öðlast meiri og gagnlegri vísbendingar. Með reynslunni frá fyrri ferðum um tímann geta þeir svo á endanum leyst málið á mettíma þó í raun hafi leikmenn glímt við hana mun lengur.
Þetta er ákaflega sniðugt spil, framleiðslan er flott og nær algjörlega þessum spæjaraáhrifum sem hönnuðurinn setti sér markmið um að ná fram. Ókostirnir eru hinsvegar að þegar leikmenn hafa lokið einu ævintýri (ætti að taka 8-12 klukkustundir samanlagt) þá vita þeir of mikið til að hægt sé að spila sama ævintýrið aftur. Þá er hinsvegar um að gera að sækja sér næsta kaflann í sögunni.
Í raun er þetta eins og góð bók þar sem þú ert sjálfur í lykilhlutverki. Þegar þú veist endinn þá er minna varið í að lesa bókina aftur. En þá leitar maður uppi framhaldið.
Ótrúlega fínt spil.