Jungle Speed var fundið upp fyrir um 3000 árum síðan í hinni suðrænu Spidopotamíu af Abouloubou ættbálkinum. Aboulouboumenn völdu sér höfðingja með því að nota hefðbundið spil sem spilað var með tröllvöxnum laufblöðum gúmmítrjáa. Spilinu fylgja ekki lengur gúmmílaufblöð heldur 80 spjöld með mismunandi táknum sem er skipt á milli leikmanna og látin snúa á hvolf. Hið heilaga trékefli er sett í miðjuna og leikmenn fletta síðan einu spili í einu. Ef samskonar tákn koma upp hjá tveimur eða fleiri leikmönnum þá heygja þeir einvígi. Í því keppast þeir við að ná trékeflinu en sá sem tapar verður að taka upp bunka hins. Markmið spilsins er að vera fyrsti leikmaðurinn sem nær að losa sig við öll spjöldin sín og vera útnefndur höfðingi Abouloubou.
Leikmenn geta fundið villimanninn í sér og togast um keflið eins og apar en mikilvægast er þó umfram allt að taka reglurnar ekki of hátíðlega og skemmta sér.
Getur þú orðið hinn mikli óviðjafnalegi spámaður sem baðar sig í óheftu oflofi fjölskyldu og vina?
Þorri –
Taktu allt brothætt í burtu, því þetta er sko aksjón spil. Æðislegt í góðum hóp.
María Þórdís Ólafsdóttir –
Skemmtilegt fjölskylduspil og fyrir fullorðna. Ég hef séð hluti fljúga út um gluggann þannig ég mæli með að hafa ekkert á borðinu.
Ásta Eydal –
Mjög skemmtilegt fjölskylduspil sem reynir á hraða, snerpu og athyglisgáfu! Mæli með að spila þetta á stað fjarri öllu verðmætu, og á góðu borði þar sem ég hef séð fullorðið fólk draga hvort annað þvert yfir spilaborð af keppnisskapi.
Mæli ekki með fyrir litblinda.
Salóme –
Stórhættulegt en stórskemmtilegt! Reynir á athygli og snerpu en gæti endað með brotnu nefi ef ekki er farið varlega.
Edda –
Skemmtilegt og hressandi spil sem reynir mjög á að geta hugsað hratt og verið fljótur að bregðast við. Leikmenn eru 2 til 8 og það er oft gaman að taka nokkur spil í röð í góðum hóp. Oftast eru allir glaðir og hressir eftir á, jafnvel svolítið búnir á því. 🙂
Snýst í grófum dráttum um að fylgjast vel með gangi spilsins og grípa trékefli á hárréttum tímapunkti.
Anna Ólöf Kristófersdóttir –
Eitt af mínum uppáhalds spilum. Fjörugt og kappsmikið, hér kemur keppnisskap fólks í ljós. Spil með litríkum formum er skipt jafnt á milli keppenda, þegar tveir eða fleiri fá upp sama form reyna þeir að grípa keflið í miðjunni, sá sem nær keflinu losnar við bunkann sinn í borði til þess sem ekki náði keflinu. Svo eru spil sem breyta í lit og þá grípa þeir keflið sem fá eins lit. Mikill hasar og hraði getur skapast og mikilvægt að passa sig að spila þetta ekki innan um brothætt eða verðmætt dót því keflið á það til að fljúga af stað þegar margir reyna að hrifsa það til sín í einu. Einstaklega fyndið og skemmtilegt spil, rífur upp stemninguna og alltaf stutt í hlátur. Einnig einstaklega gott spil til að þjálfa hugann. Reynir á að þekkja formin, athyglina og snerpu. Skemmtilegt fyrir börn og ekki síður fullorðna.
Hafdís –
Þetta spil er rosa fjör og skappar mikin eldmóð í þáttakendum.
snædís –
Skemmtilegt spil sem reynir á snerpu og einbeitingu. Mörg lík mynstur til þess að blekkja! hentar vel fyrir 4-6
Daníel Hilmarsson –
Mjög skemmtilegt fyrir alla aldurshópa. Keppt er um að ná keflinu í miðjunni. Þó mikilvægt að færa allt brothætt í burtu og passa æsinginn. Ég er á þrítugsaldri og mamma mín (á fimmtugsaldri) náði að slá keflinu í hausinn minn í æsingi (alveg óvart)
Eidur S. –
Það er mjög gaman að keppa um að grípa fyrstur í keflið. Helst þurfa allir að vera með klipptar neglur samt svo það fari ekki að blæða þegar hendur klessa saman, eins og mun gerast. .