Seinasta laugardag héldu Spilavinir svokallað Pandemic Survival mót í versluninni. Survival er skemmtileg leið til að spila Pandemic en hugsanlega mun meira stressandi en venjulega.
Fyrirkomulagið er þannig að borðin og allir spilastokkar eru eins hjá öllum. Tveir eru saman í liði og það sama mun henda alla leikmenn á öllum borðum. Stjórnandi mótsins hefur raðað öllum spilum og viðburðum í eins röð. Það eina sem er öðruvísi á milli borðanna eru ákvarðanirnar sem leikmenn taka og þegar lið fara í mismunandi áttir verða aðstæðurnar sem þau glíma við mjög mismunandi. Seinasta liðið til að detta út eða fyrsta liðið til að finna allar 4 lækningarnar sigrar mótið.
8 lið voru skráð til keppni og var allt tilbúið þegar þau mættu á mótið. Búið var að strengja Hazard-borða til að skilja spilarýmið frá búðinni og allir þátttakendur fengu sóttkvígalla og grímu (til að verjast hugsanlegum sýkingum auðvitað). Stjórnendur héldu utan um hverja umferð en í hverri umferð höfðu leikmenn 1 mínútu og 15 sekúndna umhugsunartíma, að honum liðnum var þeim sagt að draga 2 spil upp á hendi og þegar allir höfðu gert það tilkynnti stjórnandi hvaða borgir væru sýktar áður en liðsfélaginn byrjaði sína umferð.
Mótið var gríðarlega spennandi og strax var ljóst að fólk spilaði mjög mismunandi. Þegar tilkynnt var um sýktar borgir heyrðust stundum óp eða blótsyrði á sumum borðum en “yess!” og húrrahóp frá öðrum. Allt eftir þvi hvar menn voru staðsettir á þeim tíma.
Annar liðsmaðurinn spilaði rannsóknarhlutverkið og hinn var sóttvarnarsérfræðingurinn og því skipti staðsetning manna í heiminum öllu máli.
Smátt og smátt duttu borðin út, ýmist vegna fjölda faraldra eða vegna þess að sjúkdómakubbarnir kláruðust í ákveðnum lit. Eftir rúman klukkutíma voru aðeins tvö borð eftir og þegar annað þeirra datt út var komin afgerandi niðurstaða.
Sigurvegarar Pandemic Survival móts Spilavina í þetta skiptið voru þeir Breki Steinn og Þorlákur en þeir eru einmitt feðgar og unnu svona vel saman.
Mótið heppnaðist gríðarlega vel og var auðvelt í framkvæmd. Allir skemmtu sér frábærlega og því hefur verið ákveðið að hafa þetta reglulegt. Boðað verður til næsta móts með góðum fyrirvara á Facebook en þá verður að hafa hraðar hendur því aðeins er pláss fyrir 16 spilara eða 8 tveggja manna lið.