Spilavinir 8 ára!

Skoðað: 0

Spilavinir verða átta ára 4. október næstkomandi. Að því tilefni viljum við gera eitthvað skemmtilegt og fagna áfanganum. 1. – 4. október verða því afmælisdagar í búðinni, 20% afsláttur af öllum spilum og púsluspilum, mikið spilað og við verðum í hátíðarskapi.

Spilavinir byrjuðu í 70 fermetra búð á Langholtsveginum. Á brattann var að sækja því enn var ríkt í þjóðinni að spilað væri bara á jólunum og þá keypt jólaspilið. Eigendur Spilavina, þær Svanhildur og Linda, fóru snemma að bjóða upp á spilakennslu og spilastundir með nemendum og foreldrum þeirra sem fóru fram í skólunum. Það og að til þeirra var hægt að koma og prófa langflest spil sem voru í versluninni jók spilaáhuga fólks og nú er verslunin á tveimur hæðum í bláu húsunum í Skeifunni, og er stundum með tvo hópa í einu úti í bæ að stýra spilakvöldum.

Vöruúrvalið hefur aukist jafnt og þétt í gegnum árin. Spilatitlarnir skipta hundruðum en verslunin leitast við að kynna sér allt sem er í gangi hverju sinni og tryggja fjölbreytt vöruúrval. Starfsfólk er síðan boðið og búið til að sýna spilin, leyfa fólki að prófa þau og tryggja að allir viti alltaf nákvæmlega hvað þeir eru að kaupa.

Spilakvöldin sem haldin eru í versluninni annan hvern fimmtudag, eru orðin fastur liður hjá mörgum. Þau sækja um 40-80 manns hverju sinni og sennilega er aðeins tímaspursmál hvenær við fjölgum spilakvöldunum. Hvað þá þegar fólk uppgötvar að við erum komin með lítið kaffihús hérna.

En við erum ekki aðeins að fagna afmælinu okkar, heldur líka því að nýlega hlutum við Best of the Game Trade verðlaunin fyrir bestu barnaspiladeildina á heimsvísu og því er tilefnið til að fagna tvöfalt.

Af því að afmælisdaginn sjálfan ber upp á sunnudegi munum við hafa opið þann dag en það verður áhugaverð tilraun að prófa að hafa opið á sunnudegi. Það verður nánar auglýst í vikunni.

Skrifa athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Karfa
;