Camel Up er frumlegt fjölskylduspil þar sem leikmenn í hlutverki ríkra Egypta koma saman í eyðimörkinni til að veðja á úlfalda. Úlfaldahlaupið er spennandi og menn verða að hafa sig allan við til að sjá út líklega sigurvegara.
Spilið vann Spiel Des jahres verðlaunin í ár og ekki furða þar sem það er sniðugt, framleiðslan til fyrirmyndar og heldur manni á tánum.
Leikmenn skiptast á að færa úlfaldana með sérstökum teningapýramída, veðja á dýrin og setja niður vatnsból. Mikilvægt er að vera fyrstur að veðja á þann úlfalda sem þér finnst líklegur til sigurs en fljótfærnin verður oft til þess að maður tapar stigum því maður veðjaði á rangan hest… úlfalda meina ég.
Einnig er hægt að veðja á þann sem þér finnst líklegastur til að verða seinastur og svitna síðan þegar ljóst er að hann er allt í einu orðinn fremstur.

Camel up er fyndið og hentar fyrir alla átta ára og eldri. Það er fyrir 2-8 leikmenn og spilast á svona 30 – 45 mínútum.