Castles of Mad King Ludwig var að vinna Mensa Select verðlaunin 2015. Það eru verðlaun sem gáfumannafélag Bandaríkjanna veita 5 spilum ár hvert og eru frábær meðmæli.
Castles er svolítið eins og Carcassonne á sterum. Það er ekki flókið en leikmenn þurfa að vega og meta hversu mikils virði stigin eru og hvar herbergin eru staðsett í kastalanum sínum til að hámarka stigafjöldann sem þau gefa.

Svo er einn byggingarmeistari í hverri umferð sem ræður hvað herbergin kosta. Það er erfitt því hann þarf að verðleggja herbergin eftir því hvað hann heldur að aðrir séu tilbúnir að borga fyrir þau. – Hann fær nefnilega peninginn sem þarf síðan að endast honum þangað til hann er byggingameistari næst.
Frábært spil fyrir 2-4 og svo er bara eitthvað við það að byggja sinn eigin kastala eftir sínu höfði.