Í gær var haldið í fyrsta sinn Íslandsmeistaramót í Dominion hér í versluninni á vegum Spilavina og Rio Grande. Vinningshafinn vann sér rétt til að keppa fyrir hönd Íslands á Heimsmeistaramótinu í Dominion sem verður haldið í ágúst í Indianapolis í Bandaríkjunum.
Frábær mæting var á þetta fyrsta mót, alls mættu 38 manns að keppa. Aldur keppanda var mjög fjölbreyttur, frá 12 ára og uppúr. Sigusteinn og Torfi skipulögðu mótið og keppt var á 10 borðum, ýmist með fjórum eða þremur leikmönnum. Hver og einn spilaði þrjá leiki á mismunadi borðum við mismunadi andstæðinga. Gefin voru stig fyrir fyrstu þrjú sætin í 4 manna leik en fyrstu tvö í 3 manna leik.
Eftir 3 umferðir fóru níu stigahæstu áfram í undanúrslit. Þar voru sett upp ný sett á 3 borðum og spilaðir 3 manna leikir. Þeir sem unnu þá fóru áfram í úrslit.
Í úrslitin fóru þau Andrea, Þórdís og Jón Svan sem vann síðasta leikinn. Öll voru þau leyst út með vinningum og verðlaunapeningum.
Mótið gekk mjög vel og allir skemmtu sér vel í þessari frábæru stemmingu sem myndaðist. Við óskum Jón Svan innilega til hamingju með verðlaunin og þökkum jafnframt öllum sem komu og tóku þátt.