Hefur þig langað til að vera risavaxið skrímsli sem gengur berserksgang í New York?
Sjálfstætt framhald hins geysivinsæla King of Tokyo er nýkomið í verslunina okkar. Nú er stríðið um New York borg en leikmenn geta valið um ný skrímsli til að berjast með eða jafnvel nota þau sem voru í fyrra spilinu ef þau hafa gefist vel.
Umfang spilsins er meira en fyrirrennara þess en nú er hægt að herja á einstök hverfi borgarinnar og eyðileggja mikilvægar byggingar. En auk þess að þurfa að kljást við aðra spilara þarf nú einnig að fást við herinn sem sendir allt sem hann á gegn þér.

Eins og í King of Tokyo er markmiðið að verða fyrstur upp í 20 stig eða vera eina skrímsli eftir standandi. Í hverri umferð kastar þú sex teningum allt að þrisvar sinnum, sem gera þér kleift að ráðast á önnur skrímsli, lækna sjálfan þig eða safna orku sem hægt er að nota til að kaupa fjölmarga mismunandi og skemmtilega ofurhæfileika sem enginn annar hefur.
Auk þess hefur Richard Garfield, hönnuður spilsins, bætt ýmsu við spilið. Fyrir utan hverfin, byggingar og herinn geta skrímslin einnig orðið fræg eða alræmd sem getur gefið vel af stigum en hugsanlega er ekki jákvætt að vera of mikið í sviðsljósinu ef maður er risavaxið ofurskrímsli með eyðileggingarþörf.
King of New York er klárlega frábær þróun á þessu spilaumhverfi og fæst hjá okkur í Spilavinum á 8.680 krónur.