Meira en 30 ný íslensk spil árið 2025

Það vekur alltaf athygli ytra hve mörg ný íslensk spil koma út ár hvert. Með það í huga að það búa svipað margir á Íslandi og í Árhúsum (eða Flórens, ef þú vilt heldur miða við eitthvað sunnar), þá er magnað hve mikið úrval er til af íslenskum spilum. Núna er heldur betur gefið í, því það komu út yfir 30 ný spil á íslensku á árinu og fleiri á leiðinni áður en desembermánuður er liðinn!

Í þessum hópi eru bæði spil sem eru samin hérna heima og erlend spil sem hafa verið þýdd yfir á íslensku. Þessi spil koma úr öllum áttum, allt frá einföldu minnisspili (sem leggur inn fyrstu skrefin í tilfinningagreind), upp í háklassa kænskuspil eins og Harmonies, og háklassísk spil eins og Varúlfarnir í Víðidal og Patchwork. Þá má ekki gleyma hinni geysivinsælu Hitster seríu sem bætti þremur nýjum titlum við sig á árinu: Bingó, Guilty Pleasures, og Smellur 2 með enn fleiri íslenskum lögum.

Íslensk spurningaspil? Ekki spurning

Spurningaspil eru sérstaklega stór hluti af íslensku flórunni í ár. Nýtt tungl gefur út fimmta innslagið í Kviss seríuna með Stubbakviss og Krakkakviss: Hrekkjuvaka hliðarskrefum. Að auki eru komin út þrjú ný spurningaspil um bíómyndir og sjónvarpsþætti. Svo er hið litla og netta Ekki séns! að koma inn með skemmtilegan vinkil með spurningaspil þar sem þú þarft ekki að vita rétta svarið. Svo var Svaraðu rangt að detta í hús rétt í þessu (kemur á vefinn seinna í dag).

Veiðimenn, minnisspil, og Skoppa og Skrýtla

Nokkur barnaspil komu út í ár: Ertu viss? Alveg viss frá hinum þjóðþekktu Skoppu og Skrýtlu sem býður upp á skemmtilega samverustund með hinum yngstu, Töfraspilið sem vinnur með félagsfærni og styrkleika, og minnisspilið Kátur og vinir sem er hugsað til að efla tilfinningaþroska. Hespa gaf út annað Fuglaspil, og Litla fuglaspilið, sem eru í grunninn veiðimaður og minnisspil en leggja inn þekkingu á íslensku fuglalífi. Áður hefur komið frá þeim Flóruspilin sem gerðu það sama með íslenskum jurtum. Svo kom nýtt barnaspil í samkvæmisspilahópnum.

Hin ástsælu samkvæmisspil

Samkvæmisspil eru reglulegur gestur í íslenskri spilaútgáfu. Þau er auðvelt að taka upp þegar matarboðin eru haldin, og þau eru nú ófá í desember. Heita sætið er komið út í útgáfu númer tvö (bleiki kassinn) og Krakkasætið kemur til með að kæta yngri kynslóðina. Hjartsláttur er fjölskylduvæn útgáfa af þekktum leik (Would you rather). Fulltrúi drykkjuspilanna í ár er Drykk Drykk Drykk. Brian Pilkington kemur ferskur inn með What Sheep do in Iceland, sem er skemmtilega myndskreyttur spilastokkur, en spilastokkurinn á alltaf erindi í hvaða hóp sem er.

Nýtt í flórunni: Spjallspil

Spjallspil eru nýr flokkur í flórunni. Eiginlega ekki spil, því það er ekki verið að keppa í neinu; það er varla neitt mælanlegt markmið og það er varla hægt að segja að þeim fylgi neinar reglur. En það sem hægt er að segja er að þau dýpka öll þekkingu okkar á hvert öðru og tengingarnar á milli okkar. Með þeim er hægt að ná gullnum samverustundum og ná enn betur saman með vinum og fjölskyldu. Spil sem klukkar þennan hóp lítillega er spilastokkurinn Riddarar Kærleikans, sem er gefinn út til styrktar minningarsjóði Bryndísar Klöru. Einfaldur spilastokkur, nema skreyttur fallegum hugsunum sem lauma sér inn í hvaða spil sem þú spilar.

Áðurnefnd spil eru dropi í hafið af nýjum íslenskum spilum á árinu, svo hér að neðan er listinn eins hann lítur út þegar þetta er skrifað.

Það er sannarlega hægt að segja að það séu íslensk spilajól framundan!

Þýddu spilin eru (í stafrófsröð):

  1. Ekki séns!
  2. Fun Facts
  3. Harmonies
  4. Hitster Bingo
  5. Hitster Guilty Pleasure
  6. Hlutir í hringjum
  7. Krakka-Alias
  8. Mamma þín á brókinni
  9. Monkey Palace
  10. Negla!
  11. Patchwork
  12. Smellur 2
  13. Varúlfarnir í Víðidal

Íslensku spilin eru (í stafrófsröð)

  1. Bakvið tjöldin
  2. Bíóblaður
  3. Bíótöfrar
  4. Drykk Drykk Drykk
  5. Ertu viss? Alveg viss
  6. Fuglaspilið: Annar stokkur
  7. Gullkistan
  8. Hjartsláttur
  9. Kátur og vinir – Minnisspil
  10. Kíkjum í kaffi
  11. Krakkakviss 5
  12. Krakkakviss: Hrekkjavaka
  13. Krakka sætið
  14. Let’s Connect: Fyrir pör
  15. Let’s Connect: Fyrir fjölskyldur
  16. Litla fuglaspilið II
  17. Pöbbkviss 5
  18. Riddarar kærleikans spilastokkur
  19. Stubbakviss
  20. Svaraðu rangt
  21. Töfraspilið
  22. What sheep do in Iceland?

Skrifa athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Karfa