Í morgun kom í ljós að brunnur fyrir utan húsnæði Spilavina hafði stíflast og að vatn sem hann átti að taka við hafði flætt inn í kjallarann hjá okkur með þeim afleiðingum að hann fór gjörsamlega á flot.
Slökkviliðið var hér við störf í yfir tvær klukkustundir þangað til vatnsmagnið var orðið viðráðanlegt og verktakar tóku við. Þegar mest var voru hér 12 slökkviliðsmenn frá tveimur stöðvum að hjálpa okkur og dæla vatninu út en slökkviliðsbílar og sjúkrabílar fylltu planið hérna fyrir utan verslunina á meðan.
Mikið magn af spilum, púslum og húsgögnum var á neðri hæðinni og ljóst að eitthvað er skemmt. Margt geymdum við á brettum, sem betur fer, en margar tegundir af pappír eru í hinum ýmsu spilum og enn óljóst hvaða áhrif rakinn hefur á þau.
Starfsfólk er á þönum fram og til baka en verslunin sjálf, efri hæðin öll, slapp alveg sem betur fer.
Við viljum þakka köppunum í slökkviliðinu sem björguðu okkur alveg hér í dag og munum klárlega bjóða þeim í spil við tækifæri.
Núna höldum við áfram að laga til og redda. Við sem spilum mikið þekkjum það vel að stundum er heppnin ekki með manni en með smá skynsemi og þrautseigju er ekkert mál að koma til baka.