Dagur einhleypra í Spilavinum

Skoðað: 211

Nú er einn stærsti afsláttardagur Spilavina að baki, og pantanir bíða spenntar í hillunum eftir að vera sóttar. Sumar voru sóttar af Póstinum og Droppinu strax um helgina og ættu að vera komnar alla leið núna. Hrós fá Droppið og Pósturinn fyrir að auka þjónustuna um helgina. Það kom sér mjög vel að losna við pakka úr húsi, því pantanirnar taka svo mikið pláss að við þurfum að stilla upp aukahillum uppi í kaffihúsinu til að koma þeim öllum fyrir, og geta afgreitt þær hratt.

Í gegnum árin hefur kerfið sem við notum til að taka á móti, pakka, raða, og afgreiða pantanir þróast og þroskast. Fyrst þegar við ákváðum að prófa að taka þátt í Degi einhleypra, 11. nóvember , þá áttum við ekki von á þeim gífurlegu viðbrögðum sem viðskiptavinir okkar sýndu. Svanhildur var hóflega bjartsýn og mætti snemma um morguninn til að taka til pantanir. Þegar Linda og ég mættum var Svanhildur góð með sig, því hún hafði klárað að taka til allar pantanir sem komu um nóttina og morguninn. Okkur Lindu þótti nokkuð til koma með það, því við höfðum séð pantanafjöldann í stjórnkerfi vefsins og áttum von á að það tæki meira pláss en það sem við sáum.

svanhildur og linda 11 11 2020
Svanhildur og Linda að pakka inn á Degi einhleypra 2020.

Ég leit í vefkerfið og sá að pantanirnar þar voru ekki allar afgreiddar. Stutt rannsókn leiddi í ljós að pappírinn í prentaranum var búinn. Ég tók góðan bunka af pappír og setti í prentarann sem fór strax af stað og dældi út úr sér pöntunum. Þetta var ekki eina skiptið sem þurfti að skipta um pappír í prentaranum. Þarna varð til reglan að athuga alltaf pappírinn í prentaranum þegar við lokum.

Versluninni lokað til að afgreiða pantanir

Þegar prentarinn fór aftur af stað skiptum við bunkanum á milli okkar (mistök, sem ég tek á neðar) og fórum í að taka saman pantanir sem voru afgreiddar jafnóðum — en ekki jafn hratt og við gátum sótt þær úr hillunum. Sumum þurfti að pakka inn fyrir sendingar, utan um aðrar var settur pappírsrenningur sem var svo skrifað nafn viðskiptavinarins á, og pöntunarnúmer. Smám saman byggðust upp fjöll af pöntunum sem átti eftir að afgreiða, og engin leið að sjá hvaða pöntun átti að afgreiða á undan annarri. Borðplássið á afgreiðsluborðinu nægði ekki svo við sóttum annað borð, og tæmdum færanlegu hringborðin til að nýta þau undir pantanir. Ekkert dugði svo verslunin stútfylltist af pöntunum og við sáum að ákvörðunar var þörf. Gátum við opnað verslunina svona fulla af hálf-kláruðum pöntunum? Við sáum að við þyrftum að loka versluninni þar til allar pantanirnar væru afgreiddar.

Óuppfylltar pantanir

Á meðan tilbúnar pantanir stöfluðust upp um alla búð, var eitt borð sem ein og ein pöntun slæddist inn á, en það voru pantanir sem ekki náði að uppfylla af einhverri ástæðu. Ég fékk hlutverkið að hringja í fólk með slíkar pantanir og hjálpa því að finna vöru í staðinn (svo afslátturinn nýttist) eða bjóða því endurgreiðslu. Stundum þurfti bara að leita betur af spilum, en oft voru þau hreinlega ekki til. Það var þá sem við sáum að það þurfti að herða nokkrar skrúfur í birgðabókhaldinu. Við höfðum ekki staðið nægilega þéttan vörð um að skrá út gölluð spil eða spil sem fóru í spilasafnið okkar, og það sem verra var, þegar ein vara var tekin úr pöntun því hún fannst ekki þá fór hún aftur í vefverslunina og svo koll af kolli. Því þurfti ég oft að hringja í fólk með óuppfylltar pantanir vegna sama eintaksins af vöru sem fór aftur og aftur inn á vefinn.

Á þriðja degi

Það tók okkur allan þennan dag og næsta að ganga frá búðinni svo við gætum opnað hana aftur. Það var ekki fyrr en á þriðja degi að allar pantanir voru komnar á sinn stað, í hillu eða í póst. Þá fyrst gátum við opnað verslunina aftur, og byrjað að afhenda pantanirnar. Þegar viðskiptavinir komu að sækja pöntun, þá þurfti eitt okkar að fara í gegnum stafrófs-raðaðar hillurnar, þylja upp stafrófið í huganum til að finna réttan stað – og vona að varan hafi ratað á réttan stað, lesa mis-skýrt skrifuð nöfn sem voru skrifuð á pappírsstrimil, pappírspoka eða kassa eftir tilfellum, og afhenda vöruna. 

Stafróf og tölur

Þó svo að um leið og stafrófið hefur verið okkur tamt frá 5 ára aldri eða svo — sem eru 45 ár hjá mér – þá er ekki hlaupið að því að muna hvort M sé á undan eða eftir N, hvar P sé í röðinni, svo ég tali nú ekki um Q eða ÞÆÝÖ röðina. Svo á eftir að raða eftir staf númer tvö, og þrjú. Miklu fljótlegra og auðveldara er að nota tölustafi. Þó maður geri stöku sinnum lesblinduvillur og lesi 47 í stað 74, þá er miklu fljótlegra að raða og finna eftir töluröð. Þess vegna röðum við eftir pöntunarnúmeri í dag. Annað sem við fáum með því að nota pöntunarnúmerið er að aldur pantana verður ljósari, og við sjáum hratt hvort pöntun sé orðin gömul eða sé ný. Auk þess er pöntunarnúmerið ákveðið öryggisatriði því fólk þarf að para saman sex stafa tölu við rétt nafn áður en það fær spilið afhent.

Þess vegna er gott að hafa pöntunarnúmerið við höndina þegar pöntun er sótt.

Árið eftir fyrsta Einhleypa daginn skiptum við um viðbót til að sinna útprentunum á pöntunum, og fengum með henni nýja þjónustu: Afhendingarmiða sem við prentum út og límum á, í stað þess að skrifa misvel.

Afhendingarmiðarnir okkar hafa líka þróast frá því að vera með pöntunarnúmerinu og nafni viðskiptavinar í að sýna dagsetningu, netfang og síma (sem auðveldar okkur að minna á ósóttar pantanir), og svo sendingarmáta, til að sjá strax hvort vara sé á réttum stað (Sótt í verslun) eða eigi að fara annað (Droppið, eða Póstur).

Að lokum hefur það hjálpað mikið að nota plastrúllu til að festa spil saman, því það er miklu fljótlegra og öruggara, býður upp á fleiri möguleika til að setja spil í hillu, og svo er auðvelt að sjá hvað er í hverjum pakka. Eins byrjuðum við að setja tölu á hvern pakka, sem merkir hve margar vörur eiga að vera í pakkanum, svo við getum komið í veg fyrir að það vanti í hann.

Staflarnir fóru í kassa

Í ár sáust ekki staflarnir af pöntunum sem hafa fyllt búðina frá upphafi, og að auki voru vörur afgreiddar í þeirri röð sem þær bárust. Svanhildur tók allar pantanir að sér og gætti að hver væri kláruð á fætur annarri í réttri röð. Svo gekk mun hraðar að ganga frá þeim, því hún kom með þá snilldarhugmynd að setja vörur úr nokkrum pöntunum saman í uppstaflanlega kassa og svo pöntunarblöðin í einum stafla með þeim. Þannig var hægt að raða mörgum pöntunum í kassa, sem röðuðust upp á gólfið í réttri talnaröð. Þetta ferli gaf það með sér að vörurnar sem áttu að fara í póst fóru niður í kjallara á sér pökkunarstöð og tóku því ekkert pláss í versluninni. Vörur sem áttu að fara í hillurnar fóru á sína pökkunarstöð þar sem þær voru festar saman með plastrúllu og límdur á þær afhendingarmiði. Loks var þeim raðað upp í hillur næstum koll af kolli, því þær voru í réttri röð.

Dagsljós framundan eða lest, kannski bæði

Núna er hillunum að fækka uppi í kaffihúsi – aðeins ein lausahilla eftir – því fólk er duglegra að sækja pantanirnar sínar. Verslunin og kaffihúsið eru að komast á sinn stað aftur — sem er frábært, því Stafræni mánudagurinn er framundan og svo jólaverslunin, þar sem við munum þurfa að reiða okkur á þetta kerfi til að tryggja viðskiptavinum okkar skemmtileg spilajól. Til dæmis með nýja Ticket to Ride Legacy spilinu, sem er alveg glæný leið til að spila þetta gífurlega vinsæla lestarspil…

Skrifa athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Karfa
;