Skoðað: 321
Möndlugjafir 2024
Nokkrar af vinsælustu möndlugjöfunum okkar.

Hvernig velja Spilavinir möndlugjafir?

„Hvað á ég að velja í möndlugjöf?“ er spurning sem fólk út um allt land spyr sig sífellt oftar að eftir því sem nær dregur desember. Enda er spil í möndlugjöf fyrir löngu orðin hefð á fjölmörgum heimilum landsins. 

Það getur verið heljarinnar áskorun fyrir fjölskyldur að finna rétta spilið fyrir möndlugjöfina, þar sem spilið þarf stundum að ná til breiðs aldurshóps. Það að finna spil sem sjö ára barn og áttræður afi hafa bæði gaman að getur verið erfitt en það er langt frá því að vera ómögulegt. 

Hvað er yngsti leikmaðurinn gamall?

Þegar við í Spilavinum hjálpum fólki að velja möndlugjafir byrjum við yfirleitt á að spyrja hver aldurinn er hjá yngsta fjölskyldumeðlimnum. Það er gott viðmið til að velja hversu flókið spilið getur verið. Markmiðið er að finna spil sem yngsti fjölskyldumeðlimurinn getur spilað og að ekkert komi í veg fyrir að sá elsti hafi jafn gaman að því. Þá skiptir engu máli hver vinnur, spilið mun henta þeim sem fær möndluna.

Ef yngsta barnið í fjölskyldunni er fimm ára gamalt þarf að finna spil sem barnið getur spilað, en svo þarf spilið líka að vera skemmtilegt fyrir þau sem eru talsvert eldri. Það eru ekki mörg spil sem ná svona breiðu aldursbili, en sem dæmi má nefna spilin Mantis og Kaleidos Jr.

Aldursviðmiðið er ekki þak

Neðar eru fleiri dæmi miðuð við aldursbil. Hafið í huga að það er ekkert mál að fara niður um aldursbil — munið að spilin henta líka eldri. Aldursviðmiðið svarar spurningunni: Hve ung börn ættu að geta spilað spilið. Aldursviðmiðið er ekki þak.

Þó svo að yngsta barnið sé til dæmis tíu ára gamalt þá er ekkert sem kemur í veg fyrir að velja spilin sem eru fyrir sex, eða átta ára og eldri. Spilin eru öll valin með það í huga að eldri aldurshópar hafi líka gaman að þeim. Eins reynum við að hafa spilin fyrir 6 eða fleiri, svo hægt sé að byrja að spila í boðinu, ef fólk vill.

Möndlugjafir eftir aldri yngsta fjölskyldumeðlimsins

Takið eftir hve mörg spil eru fyrir 8 ára og eldri, en það er einmitt helsta aldursviðmiðið fyrir fjölskylduspil. Einfaldar og skýrar reglur sem auðvelt er að tileinka sér.

Hvað ef yngsti meðlimurinn er eldri?

Þegar yngsti meðlimur fjölskyldunnar er eldri en tíu ára þá opnast fyrir nýjar tegundir af spilum sem standa til boða: Spurningaspil og partíspil — bæði eru langoftast fljótlærð. Reyndar mælum við yfirleitt ekki með spurningaspili fyrir fjölskyldur með yngri en 14 ára. Ástæðan er að spurningaspil fjalla um að vita hluti og þar hallar nánast alltaf á þau yngri.

Spilin Tímalína og How Dare You? eru þó fínar undantekningar á þeirri reglu, enda er auðvelt að giska í þeim báðum. Partíspil er næstum alltaf auðvelt að læra og kenna — og mörg þeirra henta fjölskyldum með börn.

Á vefnum okkar er hægt að sía spil eftir meðal annars aldri, spilatíma og fjölda, og ef þú smellir hér þá ferðu á síðu þar sem ég er búinn að sía partíspil fyrir 12 ára og eldri. 

Hvað ef börnin eru yngri en fimm ára?

Sé yngsti meðlimurinn hins vegar yngri en fimm ára verður staðan snúnari. Með svona ung börn þarf að velja hvort spilið eigi að höfða til yngsta fjölskyldumeðlimsins eða breiðasta aldurshópsins. 

Það gæti hentað að velja möndlugjöf sem miðar við næst-yngsta meðlim fjölskyldunnar. Fari svo að yngsti meðlimurinn fái möndluna er hægt að skipta gjöfinni í eitthvað sem hentar þeim betur. 

Ertu enn á gati?

Ef þú stendur enn á gati varðandi möndlugjöfina getur þú litið á allan listann okkar yfir möndlugjafir hér. Einnig hvetjum við þig til að kíkja í heimsókn til okkar á Suðurlandsbraut 48 eða senda okkur skilaboð hér á vefsíðunni. Það væri okkur ánægja að aðstoða þig við að finna möndlugjöf sem hentar þinni fjölskyldu.

Gleðileg jól og gangi þér vel í leitinni að réttu möndlugjöfinni!

Skrifa athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Karfa
;