Íslandsmeistaramótið í Dominion 2024

Skoðað: 76

Íslandsmeistaramótið í Dominion 2024

Það eru ekki mörg borðspil sem eru svo vinsæl að hægt er að halda Íslandsmeistaramót í þeim ár eftir ár. Það allra vinsælasta er hið margverðlaunaða Carcassonne, enda gífurlega vinsælt spil, var til dæmis valið spil ársins í Þýskalandi 2001 og er eitt þeirra alþjóðlegu borðspila sem getur státað sig af því að vera til á íslensku. Fast á hæla Carcassonne kemur Dominon, sem kom fyrst út árið 2008 og hefur síðan þá verið endurútgefið reglulega.

Mótið mótað

Dominon mót hafa verið haldin reglulega í Spilavinum frá árinu 2013. Nú síðast í gær, þar sem 30 manns kepptu í þriggja manna leikjum sem hver var með mismunandi uppsetningu af spilinu, en í dag hafa komið út 15 viðbætur sem hver hefur bætt við nýjum spilum til að nota. Fyrir einn leik í Dominion eru alltaf 10 tegundir spila valin, en spilin mega koma úr hvaða viðbót sem er. Þetta gerir Dominion einstaklega fjölbreytt og áhugavert að kafa í og kynnast.

Klárir keppendur

Keppendur í ár voru skemmtilega ólíkir innbyrðis; allt frá því að vera rétt nýbúnir að kynnast spilinu, í það að hafa þekkt spilið frá upphafi og spilað í að verða sextán ár bæði á borði og í appinu sem hægt er að fá. Flestir leikirnir tóku í kringum 30 mínútur, en sá allra stysti kláraðist á 13 mínútum! Stigatala hvers leiks var allt frá því að vera ótrúlega jöfn; stundum var aðeins eitt stig sem réði úrslitum! Þegar þrjú spil höfðu verið spiluð tóku undarúrslitin við þar sem níu efstu keppendurnir kepptu um að fá komast í úrslitin um titilinn Íslandsmeistari í Dominion 2024.

Umsnúningur undanúrslitanna

Spennan var í hámarki þegar talið var í sætin í undanúrslitum, en þegar keppendur höfðu stillt sér upp og voru reiðubúin að byrja rétti einn keppandi sem ekki hafði komist í undanúrslitin upp hönd og gerði athugasemd við talninguna. Okkar dásamlegi dómari og umsjónarmaður mótsins, Steingerður Lóa Gunnarsdóttir, fór rækilega yfir stigagjöfina aftur og komst að því að… þetta var rétt! Keppandinn sem hafði ranglega fengið sæti í undanúrslitunum gaf sætið sitt eftir mótmælalaust, enda allir sem þátt tóku hið dagfarsprúðasta fólk.

Verðugir verðlaunahafar

Undanúrslitin réðust svo um hálftíma seinna og var þá raðað á úrslitaborðið. Á því borði lentu fyrrum Íslandsmeistari í Dominion, Guðmundur Arnlaugsson, Hugrún Ösp Ingibjartsdóttir — og keppandinn sem hafði rétt upp hönd, Eirný Sveinsdóttir. Eftir æsispennandi úrslitaviðureign stóð Eirný uppi sem sigurvegari og er því Íslandsmeistari í Dominion 2024!

Við þökkum öllum þátttakendum fyrir stórskemmtilegt mót. Næst á móta-dagskrá Spilavina verður Carcassonne, og því um að gera að byrja að æfa sig (hægt er að versla spilið hjá Spilavinum, en svo má líka æfa sig hjá Boardgame Arena).

Skrifa athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Karfa
;