Spilavinir: A Wonderland of Games, Coffee, and Good Times

Skoðað: 6

Ég rakst á þessa grein á vef Stúdentablaðsins, og mátti til með að deila henni með ykkur — roðnandi af stolti og rígmontinn. Greinin er eftir Kevin Niezen, og var birt 5. maí 2021. Hún var svo þýdd af Stefáni Ingvari Sigfússyni, sem er birt hér að neðan.


Lof mér að leggja fyrir þig gátu:

Hvað er það sem er óútreiknanlegt en má reikna með að sé skemmtilegt? Hvað er hlýtt þótt það eigi heimi í ísköldu undralandi? Hvað er fjörugt og hættir aldrei að leika sér?

Svarið er ekki íslenska veðrið, þó það væri skiljanlegt að þú héldir það. Svarið við gátunni er yndislegur staður í Reykjavíkurborg, athvarf stútfullt af gleði og frumleika, af töfrum og leikgleði. Í þessari grein vil ég segja ykkur frá Spilavinum, spila-kaffihúsi sem býður ekki einungis upp á gott kaffi, en einnig kost á því að spila úrval borðspila. 

Hafið í huga að þessi grein endurspeglar mína persónulegu upplifun og þó það sé ekki öruggt að þið munið upplifa sömu töfra og ég, eru góðar líkur á því að Spilavinir leggi þessi yndislegu álög á ykkur líka.

Á þessum tímum plágunnar gleymum við oft hvar við vorum og hvað við vorum að gera á hverjum tilteknum degi vegna þess að, tja, okkur finnst flestir dagar vera ógreinanlegir frá öðrum. Ég man hins vegar vel hvar ég var og hvað ég var að gera þegar ég frétti fyrst af Spilavinum. Ég var í stúdíó íbúðinni minni á fjarfundi með ritstjórn Stúdentablaðsins, að reyna að láta mér detta í hug fleiri áhugaverð umfjöllunarefni fyrir blaðið. Kær vinkona mín, sem vill svo til að er ritstjóri blaðsins, minntist á forvitnilegan stað, kaffihús ólíkt öllum öðrum sem ég hafði heyrt um. Kaffihúsið, sem hún kallaði „Spilavini“, bauð ekki bara upp á gott kaffi, heldur einnig stað fyrir fólk til að njóta tímans með vinum og spila úrval borðspila. Þessi hugmynd heillaði mig og því bauð ég fram krafta mína við að skrifa grein um kaffihúsið.

Ég verð að viðurkenna að ég vildi ekki bara skrifa þessa grein til þess að fræðast um staðinn; ég gerði það vegna þess að mig vantaði afsökun til þess að fara þangað. Strax næsta dag tókum við kærastan strætó – við ætluðum að labba, en íslenskt veður á það til að breyta plönum fólks á dramatískan hátt – og gerðum okkur ferð á hvössum, snjóþungum sunnudegi. Það fyrsta sem ég fann þegar ég steig inn í verslunina – fyrir utan rosalegan létti, þar sem ég hafði losnað úr greipum vetrarins – var að töfrandi ára vofði yfir þessum stað. Hann var kósí en rúmgóður, látlaus en litríkur, alvörugefinn og leikglaður, allt í sömu andrá. Ég velti því fyrir mér hvort spilin í þessu feiknastóra safni myndu skyndilega vakna til lífsins og segja sínar sögur, og þau gerðu það, á vissan hátt.

Eftir að hafa fengið okkur kaffi ætluðum við okkur að spila nokkur spil sem við þekktum. En ég væri að ljúga að ykkur ef ég myndi ekki viðurkenna hversu heltekin við vorum af lokkandi töfrunum sem voru alltumlykjandi í Spilavinum, svo mikið að við fórum ekki fyrr en fimm mínútum eftir lokun. Fyrir utan það að hafa prófað spil sem við þekktum ekki áður, fengum við bara ekki nóg af því að spila og vildum halda því áfram, líkt og börn. Við gengum út úr Spilavinum með fimm ný spil í farteskinu. Ef þetta sannfærir þig ekki um töfrakraft Spilavina þá máttu vita að heimsókn í þetta musteri skemmtunar er líka vistvænt. Þú spyrð kannski hvers vegna? Og það er vegna þess að þú þarft ekki að kaupa spilin sem þú spilar í heimsókninni og þarft þar að leiðandi ekki að eiga hrúgu af spilum sem enda svo kannski í ruslinu. Það eina sem þú þarft í Spilavinum er forvitni og opinn hugur en með því gefa þig á vald töfranna leggurðu einnig þitt á vogarskálarnar við að vernda plánetuna.

Ég get ekki fullyrt að þú komir til með að deila reynslu minni af Spilavinum. Stundum virka töfrar þessa heims á undarlegan, óútskýranlegan hátt. En trúðu því að töfrarnir séu til staðar. Að þeir svífi yfir vötnum og bíði eftir því að þú finnir þá. Trúðu því líka að að heimurinn sé ekki eintómar plágur, frostavetrar og kreppur. Trúðu því að það séu enn eftir smá töfrar til þess að leika með, og að það sem virkar eins og hversdagslegt, látlaust kaffihús geti í raun verið undraland leikja, kaffis og góðra stunda.

Skrifa athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Karfa
;