
Það eru alltaf gleðitíðindi þegar það koma ný íslensk spil á markaðinn, en það gerist ekkert allt of oft. Þess vegna vissum við varla hvaðan á okkur stóð veðrið þegar sjö þeirra hlóðust inn í gær — og svo komu tvö í viðbót áðan! Algengast er að íslensk spil séu í léttari kantinum, partíspil og fjölskylduspil, og eru þessi þar engin undantekning.
Spilin eru ekki öll al-íslensk því sum þeirra eru þýdd — en það er engu minna gleðiefni! Við fögnum því að það sé verið að hlúa að íslenskunni í spilaheiminum, og drögum ekki í dilka eftir því hvort spilið eigi uppruna sinn í íslenskum haus eða ekki.
Í hópnum eru 5 barnaspil, 3 partíspil fyrir fjölskyldur, og eitt partíspil sem er alls ekki fyrir yngri en 18 ára. Spilin eru (í stafrófsröð):
- Alias
- Blæti
- Feluleikur í frumskóginum
- Jólasveinaspilið
- Krakkakviss 4
- Krakkalæti
- Litla jólasveinaspilið
- Læti 2
- Pöbbkviss 4
Fyrr á þessu ári komu út íslensk spil sem má alveg halda til haga: Hitster Rock er ný útgáfa af þessu frábæra tónlistarspili, Catan Junior sem er barnaútgáfa af hinu klassíska Catan, tvær tegundir af Time’s Up partíspilinu, og Speak Like the Locals sem er að vinna með íslenska málshætti á beinþýddri ensku, og svo þarf að giska á um hvað málshátturinn er.
Von er á fleiri íslenskum spilum fyrir jólin sem bæta enn meiru í flóruna. Barnaspilið Krokoloko er til dæmis alveg að detta inn. Við segjum frá þeim þegar þau koma.