
Breytingar í Spilavinum
Við höfðum gengið með hugmyndina um kaffihús í Spilavinum lengi. Það lá svo vel við, að bjóða upp á aðgang að risastóru spilasafninu okkar og kaffi og veitingar með því. Þetta byrjaði rólega með kaffivél og te, svo prófuðum við okkur áfram með pizzur en færðum okkur yfir í samlokur. Svo bættist við: Veitingar frá Hananum, bjór á dælu, alls kyns bakstur og góðgæti, og veitingar frá Pure Deli. Viðtökurnar voru vægast sagt góðar. Fólk kann vel að meta að geta komið hingað til að taka í spil geta fengið sér að borða í leiðinni. Eins hefur barnahornið alltaf verið vinsælt, og hægt að fá sér eitthvað að narta í á meðan líka.
Á þessum tíma höfum við öðlast sífellt meiri virðingu fyrir fólki sem rekur kaffi- og veitingahús. Þetta er gífurleg vinna og mikill kostnaður sem fellur til, sérstaklega ef maður vill gera hlutina vel. Smám saman hefur kaffihúsið tekið stærri og stærri hluta af vinnunni okkar og fókus, og kostnaðurinn við að reka kaffihúsið óx að sama skapi. Svo mikið að við þurfum að taka tvö skref afturábak, spyrja okkur hvert við viljum fara, og hvað við viljum vera.
Kjarninn í Spilavinum
Svarið liggur fyrir. Spilavinir eru spilabúð. Við elskum að spila og við elskum að hjálpa fólki að finna nýja uppáhaldsspilið sitt. Við viljum halda áfram að kenna börnum og foreldrum þeirra að spila saman á Bekkjarkvöldum, og við viljum hjálpa fyrirtækjum að hrista saman fólkið sitt á skemmtilegri Spilastund. Við erum Spilavinir, og ætlum að finna aftur kjarnann okkar í því sem við elskum að gera.
Þess vegna ætlum við að setja Spilakaffi upp í hillu, einbeita okkur að Spilavinum og gera nokkrar breytingar.
Sumt breytist meira, sumt minna
Breyttur opnunartími
Við ætlum að stytta opnunartímann í það sem hann var áður en Spilakaffi byrjaði: Mánudaga-laugardaga 11-18. Hinsvegar verðum við með framlengdan opnunartíma á mánudögum og fimmtudögum til kl. 22. Vefverslunin verður sem áður opin 24/7.
Hin vinsælu spilakvöld okkar, Spunaspilavinir, Borðspilavinir, BarSvar og spilamótin, verða áfram á dagskrá. Þessir viðburðir verða á fimmtudögum, og hefjast 10. október með Spunaspilavinum.
Einfaldari veitingar
Eins og það er frábært að geta boðið upp á veitingar frá nágrönnum okkar í Hananum og Pure Deli, þá ætlum við að sleppa takinu þar. Sama á við um bakkelsið og kökurnar. Hins vegar munum við áfram bjóða upp á kaffi, te, gos og bjór, og svo ýmiskonar kruðerí með því. Eins og áður verður ekki í boði að koma með veitingar að utan.
Spilasafnið og leiksvæðið
Kjallarinn okkar verður áfram opinn með óbreyttu sniði. Leiksvæðið vinsæla fyrir yngri börnin, og spilasafnið verða áfram í boði, en fylgja nýja opnunartímanum.
Spilastundir fyrir fyrirtæki
Með breyttum opnunartíma fáum við ný tækifæri til að nýta rýmið. Þess vegna munum við bjóða fyrirtækjum að halda spilastundir í Spilavinum þau kvöld sem verslunin er ekki opin. Ef þið hafið spurningar um Spilastundir fyrir fyrirtæki, sendið okkur póst á vidburdir@spilavinir.is.
Sólsetur árskortanna
Það er nokkuð síðan við hættum að selja fleiri árskort og að endurnýja þau. Fyrir því voru reyndar aðrar ástæður (kerfi sem ekki töluðu saman o.fl.), en ef þú átt árskort getur þú áfram nýtt það út gildistímann.
Í stað árskortanna ætlum við að bjóða upp á klippikort sem hverju fylgir einnota afsláttarkóði sem gildir bæði í verslun og vefverslun. Við erum að útfæra framleiðsluna og munum láta vita þegar þau koma í verslunina.
Ef þessar breytingar gera það að verkum að þú getur ekki nýtt árksortið þitt eins og þú sást fyrir, þá bjóðum við þér skipta kortinu út fyrir inneign sem miðast við hve mikið er eftir af kortinu. Sendu okkur tölvupóst á pantanir@spilavinir.is ef þú vilt skipta út árskortinu þínu.
Þessar breytingar taka gildi frá og með 1. október næstkomandi.