Svona misskilja sumir merkin þrjú á spilum

Skoðað: 852

Utan á langflestum spilum eru þrjú merki sem segja til um hve langan tíma spilið ætti að taka, hve ungur yngsti leikmaðurinn getur verið, og loks hvað spilið hentar fyrir marga leikmenn. Eins einfalt og þetta hljómar, þá rekumst við í Spilavinum reglulega á viðskiptavini sem misskilja eitt merkjanna.

Rennum yfir merkin, hvernig þau eru misskilin, og hvernig þau nýtast okkur við að velja rétt spil fyrir þig.

misskilin merki a spilum

Hvað er spilið fyrir marga?

Eitt af uppáhaldsspilunum mínum, 7 Wonders, var lengi vel merkt fyrir 2-7 leikmenn. Það þýddi að höfundar spilsins höfðu haft fyrir því að þróa reglur fyrir tvo leikmenn. Hins vegar þýddi það ekki að tveggja-manna reglurnar væru góð útgáfa af spilinu. Reglurnar létu leikmennina tvo skiptast á að spila fyrir þriðja leikmanninn (það kalla ég latar reglur). En að lokum þróaði fyrirtækið sérstaka tveggja manna útgáfu, 7 Wonders: Duel, sem er líka eitt af uppáhaldsspilunum mínum. Frábær útfærsla af frábæru spili. Ekki eins, en einstaklega gott. Önnur útgáfa af 7 Wonders er nú merkt fyrir 3-7 leikmenn.

Sérstök tveggja manna spil hafa lengi verið til (hæ, skák!), en þau hafa ekki verið stór flokkur í gegnum tíðina. Undanfarin ár hefur þeim þó vaxið fiskur um hrygg. Svo mjög að okkur fannst ástæða til að merkja þau sérstaklega.

Hvað er þetta langt spil?

Tíminn sem tekur að spila spil er oftast merktur með einhverskonar klukkutákni. Misskilningurinn um þessa merkingu er að hún sé nákvæm, en eins og svo margt í spilum, þá fer það eftir ýmsu. Sérstaklega í fyrstu spilunum. Spil sem ætti að taka hálftíma í spilun, mun alltaf taka meira en hálftíma í fyrsta skiptið — sérstaklega ef ekkert ykkar er búið að lesa reglurnar*. Fleiri leikmenn við borðið eykur næstum alltaf tímann sem spilið tekur (ég er að horfa á þig Partners+). En þegar þið eruð komin með spilið í fingurnar og kunnið það öll, þá ætti þessi tími að vera nokkuð nærri lagi.

Við mælum eindregið með því að eitthvert ykkar í spilahópnum lesi reglurnar og kynni sér spilið áður en aðrir koma að borðinu. Það flýtir fyrir fyrsta spilinu og gerir upplifunina miklu ánægjulegri fyrir hópinn. (Það finnst engum gaman að horfa á aðra lesa reglur.)

Fyrir hvaða aldur?

Þetta merki er oftast ein stór og ein lítil persóna. Það er líklega mest misskilda merkingin á spilunum. Málið er, að spil merkt “8+” er ekki eingöngu fyrir átta ára, heldur fyrir minnst átta ára. Það er að segja, helst til metnaðarfullt fyrir yngri en átta ára. Eins þarf að hafa í huga hvort spilað er við jafningja eða foreldra, því sum spil eru fullkomin með foreldrum en of flókin til að barnið geti kennti félögum sínum spilið.

Til að einfalda valið, þá skiptum við í Spilavinum spilum upp í Barnaspil, Fjölskylduspil, og Þyngri spil.

Barnaspil

Barnaspil eru fyrir fjölskyldur sem vilja spila við yngri börnin, og börn að spila við börn. Ef þú ert að velja spil fyrir börn til að spila við vini sína, þá er þetta góður flokkur til að leita í. Það er meginreglan, en á þessu eru til undantekningar. (Hvaða undantekningar, heyri ég ykkur spyrja. Mér dettur í hug Rhino Hero Superbattle, spil merkt 5 ára og eldri, en síðast þegar ég spilaði það var yngsti leikmaðurinn 42ja, og svo Animal upon Animal, sem er bara einfalt og gott stöflunarspil sem hentar langt fram eftir aldri.)

Fjölskylduspil

Fjölskylduspil eru svo spil sem er þægilegt að læra og kenna. Oftast með skýrri leið til að sigra, og fáum flækjum. Þumalfingurreglan er að spilið sé merkt 6, 7, eða 8 ára og eldri. Þegar spil eru komin upp í 10 ára, þá eru oftast komnar fleiri en ein leið til að fá stig, og val um nokkrar aðgerðir þegar maður á að gera, sem gerir spilið vissulega áhugavert fyrir lengra komna, en getur verið yfirþyrmandi.

Þyngri spil

Það eru ekki öll spil í flokknum „Þyngri spil“ þung. Sum eru tiltölulega aðgengileg og mörg hver mjög vinsæl. Munurinn á þeim og Fjölskylduspilum er sá að í þessum flokki þarf alltaf að velja á milli aðgerða þegar maður á leik. Ætti ég að kaupa mér gull, eða frekar færa mig og verjast, eða frekar draga spil og undirbúa næstu umferð. Hvað af þessu mun gefa mér flest stig? Svona spurningar eru það sem gefa mörgum spilum gildi og dýpt, en það þyngir líka spilið. Sem sagt, þyngra en ekki alltaf þungt.

Ekki hika við að spyrja

Með fyrirvara um að þú sért ekki að flýta þér, þá er alltaf góð hugmynd að spyrja starfsfólk Spilavina út í spilið sem þú ert að hugsa um. Við erum að kenna fjölmörg spil í alls kyns aldurshópum, og þá sérstaklega í grunnskólum, svo hjá okkur býr mikil þekking um hvaða spil henta hvaða aldri og hve mörgum. Við tökum vel á móti þér.

2 thoughts on “Svona misskilja sumir merkin þrjú á spilum”

 1. Avatar of Svavar Björgvinsson
  Svavar Björgvinsson

  Flottar upplýsingar. En það er eitt sem er vert að taka fram að sumir borðspilaframleiðendur gefa upp t.d. 14+ fyrir aldur á öskjunum sínum, en það þýðir samt ekki endilega að spilin sé einungis fyrir börn sem eru eldri en 14 ára. Sumar lönd fara nefnilega fram á að spil standist ákveðnar öryggisreglur varðandi spilin; að í þeim séu ekki íhlutir sem geta kæft öndunarveg og annað þess háttar. Þessi stöðluðu próf eru mjög dýr og tímafrek og því velja sumir að skrá aldurinn hærri til að forðast gífurlegan kostnað. Það víta jú flestir að 6 ára börn og eldri eru tæplega að japla á spilafylgihlutum sér til dundurs…

 2. Avatar of Þorri

  Takk fyrir ábendinguna. Það er rétt að stundum merkja framleiðendur spilin sín 14+ til að sniðganga reglur um CE merkingar sem eru nauðsynlegar fyrir spil sem eru fyrir 12 ára og yngri. Í þeim tilfellum finnst mér framleiðandinn verði að eiga við sjálfan sig að fólk gæti misskilið merkinguna á vörunni.

  Nánar um CE merkið hér: https://island.is/ce-merkid

  Með smáhluti sem geta fests í öndunarvegi ungra barna, þá er það sérmerking, óháð CE merkingu.

Skrifa athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Karfa
;