Íslandsmeistaramót í Dominion 2023

Skoðað: 6

Dominion er marg-,marg-, margverðlaunað spil sem virkar flókið þegar fólk horfir á það í fyrsta skiptið, en er auðvelt að tileinka sér — þó það sé hægt að breyta spilinu í hvert sinn sem spilað er, því að í hvert sinn eru aðeins tíu spil sem þarf að tileinka sér til að spila með, en í kassanum eru mun fleiri spil sem hægt er að velja um. Þess þá heldur þegar allar viðbæturnar er teknar með, en þær eru orðnar 15 talsins!

Eitt spil tekur um hálftíma í spilun. Dominion er kortaspil, sem þýðir að það er ekkert borðspjald sem peð hreyfast á, heldur samanstendur spilið bara af spilunum sem í því eru. Algengasta dæmið um kortaspil er venjulegur spilastokkur.

Dominion kom út 2008 og hefur hlaðið á sig á annan tug verðlauna síðan.

Hér að neðan er farið yfir spilið á myndrænan hátt á þremur mínútum.

En nóg um spilið sjálft. Í gær héldum við Íslandsmeistaramót í Dominion, og var þátttakan — eins og venjulega — mjög góð. Þegar við höldum svona spilaviðburði þá umbreytum við búðinni til að koma fyrir spilaborðum, og því heppilegt að hillurnar okkar skuli vera á hjólum! Yfir mótinu, sem fyrr, var Steingerður Lóa Gunnarsdóttir sem leysti úr regluspurningum og hélt utan um skipulagið.

Mótið er spilað á 3-4 manna borðum, og eru spilaðar þrjár umferðir af spilinu. Þau sem komu stigahæst úr þeim umferðum spiluðu undanúrslitaleiki, og svo úrslitaleik upp á efstu sætin. Keppt var um Íslandmeistaratitilinn og vegleg verðlaun, en sigurvegarinn fékk 15.000 kr gjafabréf í Spilavinum, og svo voru 5000 kr. gjafabréf fyrir annað og þriðja sætið. Þrjú efstu sætin fengu að auki gjafabréf í Spilakaffi, sem gefur aðgang að spilasafninu okkar.

Efstu þrjú sæti Íslandsmeistaramótsins í Dominion 2023: 1. sæti. Guðmundur Arnlaugsson (í miðjunni). 2. sæti. Dino Dula (til hægri). 3. sæti. Magni Rafn Jónsson (til vinstri)

Úrslitaspilið var óvenjulegt, því þegar nokkrar umferðir voru búnar í því kom í ljós að ekki var farið rétt eftir reglunum með eitt spilanna af þeim tíu sem á borðinu voru. Varð úr ráðið að best væri að endurræsa spilið frá upphafi með rétti reglu. Með öðrum orðum, þá slökktum við á spilinu og kveiktum svo aftur á því. Rétt skal vera rétt.

Efstu þrjú sæti kvöldsins skipuðu:

  1. sæti. Guðmundur Arnlaugsson (í miðjunni)
  2. sæti. Dino Dula (til hægri)
  3. sæti. Magni Rafn Jónsson (til vinstri)

Við óskum sigurvegurunum til hamingju og þökkum öllum þátttakendum fyrir skemmtilegt mót sem endranær.

Skrifa athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Karfa
;