Samvinnuspil þar sem leikmenn þurfa að losa sig við spilin sín í réttri röð — án þess að tala saman. The Mind er meira en spil. Það er tilraun, ferðalag, hópupplifun þar sem þið getið ekki skipst á upplýsingum, en verðið að vera sem eitt til að sigra öll borðin í spilinu.
Nánar tiltekið, þá fær hver leikmaður eitt spil í upphafi, og saman þurfið þið að spila spilunum út í miðjuna í réttri röð frá 1 til 100, en megið ekki eiga nein samskipti um hvaða spil þið hafið á hendi. Þið einfaldlega starið hvert á annað þar til einhverjum finnst nógu lengi beðið fyrir sitt spil og setur það út. Ef enginn er með lægra spil, frábært! Spilið heldur áfram! Ef einhver er með lægra spil, þá missið þið líf.
Þið byrjið með jafn mörg líf og fjöldi spilara. Þegar öll lífin eru búin, þá er spilið búið. Ef þið náið að klára öll spilin á hendi, þá gefið þið aftur fyrir næsta borð einum fleiri spil en síðast. Stundum fáið þið ninjastjörnu og aukalíf fyrir að klára borð. Ninjastjörnur gera ykkur kleift að láta alla spilara losna við lægsta spilið sitt. Klárið öll borðin til að sigra spilið!
VERÐLAUN OG VIÐURKENNINGAR
- 2018 Spiel des Jahres Nominee
Halldóra –
Frábært samvinnuspil, það gengur út á að “lesa” hugsanir meðspilara og leggja út í réttri talnaröð. Börnin mín og vinir þeirra á aldrinum 7-12 ára elska þetta spil, eina freistingin er að svindla á kerfinu…
Sigurlaug –
Skemmtilegt samvinnuspil þar sem ekkert má tala saman heldur gengur spilið út á að reyna að lesa hugsanir meðspilara og hlusta á tilfinninguna.
Brynhildur –
Skemmtilegt spil sem reynir á samvinnu, traust og hugsanalestur. Æsispennandi þegar vel gengur og kallar fram ýmis svipbrigði því bannað er að tala. Lítill stokkur sem tilvalið er að taka með í keppnisferðir.
Stefán Ingvar Vigfússon –
Frábært spil! Við spiluðum það reglulega, þangað til að við unnum og höfum ekki þorað því síðan! Minnir á Hanabi
Kristinn Pálsson –
Skemmtilegt samvinnuspil þar sem þörf er á þolinmæði og traust. Fínt að draga fram í upphafi spilakvölds áður en annað er spilað. Þögnin er bæði þrúgandi og spennandi. Getur verið súrt að tapa þegar vel hefur gengið.
Bergný –
Mjög skemmtilegt samvinnuspil, þar sem ekki er hægt að tala við samleikara sína, svo ýmis góð svipbrigði og líkamsbeitingar verða til. Lítið og handhægt spil sem er gott að grípa með sér í ferðalög. Gott fyrir tvo en líka skemmtilegt með fjórum, fínt “partýspil” fyrir fáa. Tekur enga stund að setja upp og spilunartími er mjög hæfilegur, fer þó eftir því hve vel gengur.