Fjölmenni á spilakvöldi 8. janúar

Skoðað: 0

Fyrsta spilakvöld ársins var haldið í gær, fimmtudaginn 8. janúar og var gríðarlega vel mætt. Þegar mest var voru um 90 manns í húsinu að spila og spilað var á 16 borðum. 8 kennarar kynntu og kenndu spil af ýmsum toga og margt nýtt og spennandi var prófað.

Strax kl 20:00 byrjaði fólk að mæta og fljótlega voru 10 manns byrjaðir að spila Colt Express á tveimur borðum.

Í því eru leikmenn í hlutverki lestarræningja í vilta vestrinu sem ákveða allir að ræna sömu lestina á sama tíma. Í kjölfarið myndast algjör ringulreið þar sem leikmenn hoppa og skoppa milli lestarvagna, klöngrast upp á þak, skjóta á hvern annan og reyna að ræna sem mestu í fimm umferðum.

Fljótlega var orðið svo þéttsetið á efri hæðinni okkar að fólk hélt niður í spilasalinn á neðri hæðinni þar sem gripið var í Cosmic Encounter, City of Horror, Abyss og Zombie ´15 meðal annars. Uppi var prófað nýtt pólskt spil sem heitir Mysterium og er skemmtileg blanda af Clue og Dixit. King of Tokyo, Catan, Lords of Waterdeep, Concept voru meðal þeirra spila sem voru í gangi þar, ásamt fjölda annarra spila en listinn er eiginlega of langur til að telja upp.

 

Nýtt spil hjá okkur sem heitir The Hare and the Tortoise var líka vinsælt en það hefur verið að vekja mikla lukku hérna hjá okkur sem vinnum í spilavinum. Hérinn, stóri vondi úlfurinn, skjaldbakan, refurinn og litla lambið eru þar í kapphlaupi og veðja leikmenn á líklegan sigurvegara sem þeir reyna að aðstoða í hlaupinu með spilum á hendi.Dýrinn hegða sér og hreyfa sig öll á mismunandi vegu en á undraverðan hátt virðast þau öll vera nokkuð jöfn. Sem dæmi þá fer skjaldbakan sér hægt en þó alltaf einn reit áfram. Á meðan litla lambið hleypur eins og vindurinn en er með athyglisbrest og stoppar alltaf við ánna til að fá sér að drekka.

Ótrúlega skemmtilegt spil fyrir fimm manns og í grunninn mjög einfalt.

Reynt var oft að klára erfitt borð í Zombie ´15 en það er spil þar sem unglingar berjast við hina lifandi dauðu í rauntíma. Með spilinu fylgir geisladiskur sem stýrir gangi spilsins en það er stressandi og mikill hamagangur þær 15 mínútur sem spilið tekur.

Þessi spilakvöld eru haldin tvö kvöld í mánuði og eru hugsuð fyrir alla 12 ára og eldri. Nánast er hægt að spila hvað sem er og starfsfólk kennir þeim sem vilja spilin og kemur þeim sem þurfa af stað.

Það er óhætt að segja að allir skemmtu sér vel. Margir prófuðu ný spil eða spiluðu við vana leikmenn í vinsælum spilum og þeir allra hörðustu spiluðu fram yfir miðnætti.

Næsta spilakvöld er svo fimmtudaginn 29. janúar og við hvetjum alla til að mæta.

Skrifa athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Karfa
;